Um Íslenska útgáfuskrá
Umfang
Íslensk útgáfuskrá veitir yfirlit yfir efni útgefið á Íslandi frá árinu 1999. Hún er rafrænt framhald af Íslenskri bókaskrá (1974-2001) og Íslenskri hljóðritaskrá (1979-2001). Efniviðurinn í Íslenskri útgáfuskrá er dreginn úr bókasafnskerfinu Gegni vikulega og upplýsingar í skránni miðast við síðasta uppfærsludag, þ.e. skráin sýnir gögnin eins og þau birtust á síðasta uppfærsludegi.
Fyrst um sinn verða verk sem gefin eru út eða birt hér á landi, sbr. lög um skylduskil til safna, skráð í Íslenska útgáfuskrá eins og hér segir:
- Verk sem gefin eru út á pappír: bækur og bæklingar (5 bls. eða meira), kort, ný blöð og tímarit. Nokkrar tegundir efnis eru undanskildar; sjá nánar Efni sem fellur utan Íslenskrar útgáfuskrár.
- Hljóðrit: snældur, diskar
- Samsettar útgáfur: t.d. bók og diskur
Fleiri tegundir efnis, svo sem örgögn, myndbönd, mynddiskar og verk útgefin á rafrænu formi, falla undir lög um skylduskil og eru skráð í Gegni. Það efni verður ef til vill tekið með í skrána síðar.
Nánari bókfræðilegar upplýsingar um Íslenska útgáfuskrá er að finna á leitum.is, ISSN: 1670-715X
Allar athugasemdir t.d. um skráningu upplýsinga eða vefinn eru vel þegnar.
Ábendingar skulu sendar til utgafuskra (hjá) landsbokasafn.is
Umsjón
Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn gefur út Íslenska útgáfuskrá. Landskerfi bókasafna sér um að draga gögn úr bókasafnskerfinu Gegni. Skráning í Gegni er samstarfsverkefni aðildarsafna kerfisins en skráningarhópur þjóðdeildar Landsbókasafns leggur lokahönd á skráningarfærslur sem falla undir Íslenska útgáfuskrá.
Birting upplýsinga
Framsetning færslu
Færslur innihalda eftirtalin atriði:
- Titill verks
- Höfundur
- Útgáfuár
- Flokkstala samkvæmt flokkunarkerfi Deweys. Frávik eru vegna íslenskra hefða
- Útgefandi
- Tengill í Gegni, aðgangur að bókfræðilegri skráningu
Dæmi:
|
Framsetning lista
Í listum er færslum raðað í stafrófsröð eftir uppflettiorði. Val á uppflettiorði er samkvæmt gildandi skráningarreglum, sjá Leitir.is. Uppflettiorð getur verið nafn einstaklings eða stofnunar ellegar titill verks.
Dæmi úr lista yfir bækur gefnar út árið 2005 á sviði félagsfræði og velferðarmála:
|
Efni sem fellur utan Íslenskrar útgáfuskrár
Fyrst um sinn fellur það efni sem hér er talið og gefið er út á pappír utan íslenskrar útgáfuskrár:
- Ársskýrslur félaga og stofnana auk ársreikninga.
- Gögn sem ætluð eru til þröngra nota (innan fyrirtækis eða stofnunar).
- Smáprent af ýmsum toga og smælki: sérprentanir, kynningarbæklingar, ferðabæklingar, ferðaáætlanir, leiðarvísar, auglýsingar, framleiðslulýsingar, söluskrár, verðlistar, ljóð, útfararprent, einblöðungar, póstkort, jólakort, myndir, teikningar, spil, dagbækur, vasabækur, bókmerki og dagatöl. Enn fremur veggspjöld.
- Þá koma einstakir hlutar verks (s.s. greinar í tímaritum, bókarkaflar, einstök lög á geisladiskum) ekki í útgáfuskránni enda þótt þeir séu skráðir í Gegni.
Dewey flokkunarkerfið
Flokkunarkerfi Deweys byggist á grunnflokkum sem er skipað niður eftir fræðigreinum. Aðalflokkar eru tíu og sameiginlega spanna þeir öll þekkingarsvið. Hverjum aðalflokki má deila í tíu undirflokka og aðeins tíu. Undirflokkunum tíu má á sama hátt deila í tíu og svo framvegis.
Aðalflokkar Dewey-kerfisins
000 Almennt efni, tölvunarfræði, bókasafnsfræði, alfræðirit o.fl
100 Heimspeki, sálfræði
200 Trúarbrögð
300 Félagsvísindi, samfélagsgreinar
400 Tungumál
500 Raunvísindi, náttúrufræði
600 Tækni (hagnýt vísindi), heilbrigðisvísindi, atvinnuvegir
700 Listir, skemmtanir, íþróttir
800 Bókmenntir og stílfræði
900 Landafræði og sagnfræði, ævisögur, ættfræði
Flokkstala gefur innihald verks til kynna. Lágmarkslengd flokkstölu er þrír tölustafir. Á undan fjórða tölustaf er punktur. Meginregla er að hver tölustafur til viðbótar táknar jafna stigvissa skiptingu í æ þrengri svið. Stigveldisskipan flokkunarkerfisins felur í sér að yfirflokkur spannar alla undirflokka sína. Sérhver undirflokkur er þannig hluti af þeim næsta á undan og undirskipaður honum.
Dæmi:
600 Tækni (hagnýt vísindi)
630 Landbúnaður og sjávarútvegur
636 Búfjárfræði
636.3 Sauðfé
Í Dewey-kerfinu eru hjálpartöflur með tölum sem nota má til að ná fram eins sértækri flokkstölu og hæfir verki sem verið er að flokka. Ísland er til dæmis táknað með tölunni 491 úr töflu 2. Tölur úr hjálpartöflum eru aldrei notaðar einar sér en skeytt við tölur úr flokkum kerfisins.
Dæmi:
600 Tækni (hagnýt vísindi)
630 Landbúnaður og sjávarútvegur
630.9 Landbúnaðarsaga
630.9491 Landbúnaðarsaga á Íslandi
Samkvæmt hefð er nokkrum frávikum beitt við flokkun samkvæmt Dewey-kerfinu á Íslandi. Frávikin lúta einkum að flokkun á efni sem varðar Ísland, svo sem íslensku máli og bókmenntum, landafræði Íslands og Íslandssögu.
Dæmi:
800 Bókmenntir
810 Íslenskar bókmenntir
819 Íslenskar fornbókmenntir
819.3 Íslendingasögur